Litunarlögurinn búinn til

Jurtalitun – gömul hefð úr ríki náttúrunnar

Jurtir í bleyti

Jurtir í bleyti

Jurtir hafa frá fyrstu tíð verið notaðar til litunar á fatnaði. Víða erlendis tíðkast að lita silki og bómullarband en á Íslandi er það fyrst og fremst ullin sem er lituð með þessum hætti. Almenna reglan er sú að hægt er að lita allt nema gerviefni.

Það er hægt að lita úr bæði blómum og trjágreinum, rótum og skófum, það er breytilegt eftir árstímum og jafnvel landshlutum og það er gaman að uppgötva hve náttúran er rík af efniviði til jurtalitunar. Algengar litunarjurtir eru baldursbrá, maríustakkur, lúpína og laukhýði, svo örfáar séu nefndar. Vinsælar innfluttar litunarjurtir eru indígó og kaktuslús sem gefur rauðan lit. Fyrr á öldum kunnu Íslendingar að lita blátt úr blágresi en sú kunnátta dó út og hefur ekki verið endurvakin.

Lögmál safnarans

Það er ekki sama hvernig gengið er um náttúruna og því hefur með tímanum orðið til það sem nefnt hefur verið lögmál safnarans:

  • Allir safnarar ganga vel um þá auðlind sem þeir nýta.
  • Við tökum bara plöntur sem við sjáum að til er nóg af.
  • Við rífum aldrei plöntu upp með rót og aldrei alla plöntuna, heldur aðeins hluta hennar, til dæmis nokkur laufblöð. Á þessu má þó gera undantekningu ef verið er að safna plöntum sem mjög mikið er af og fólk er jafnvel að reyna að losna við, svo sem lúpínu eða njóla.
  • Við tröðkum sem minnst á plöntunum og umhverfi þeirra og vörumst að skemma þær meira en nauðsynlegt er.
  • Við söfnum bara því sem við þurfum og ætlum að nota.
  • Við tínum ekki plöntur í þjóðgörðum eða á öðrum friðlýstum svæðum.

Litunarferlið

Aldrei má nota sömu áhöld til litunar og í matargerð og gæta þarf vel að loftræstingu. Í öllum jurtum eru litarefni og til að ná þeim er búinn til litunarlögur. Jurtirnar eru fyrst tættar niður eða brytjaðar, þá lagðar í bleyti og soðnar í 45-60 mínútur og síðan látnar kólna. Þá eru þær síaðar frá og ullin sett í pottinn í staðinn.

Til að litarefnin nái að festast í ullinni þarf hún að fá sína meðhöndlun áður en hún fer í pottinn. Fyrst er hún vafin upp í litlar hespur og ef unnið er með fleiri en eina jurt samtímis þarf að merkja hverja hespu til að forðast rugling.

Festilögurinn er gerður úr álsalti (álún) og vínsteini sem sýrir vatnið og eykur virkni álsins. Fyrir hver 100 g af ull eru vigtuð 10 g af álsalti og 5 g af vínsteini. Vatnið er ekki mælt í þessu sambandi, málið er aðeins að hafa nóg af vatni til að vel fljóti yfir ullina svo að það þrengi ekki að henni. Ullin er lögð í bleyti áður en hún fer í löginn og mikilvægt er að gæta þess að hún sé við svipað hitastig og festilögurinn. Síðan er festilögurinn með ullinni hitaður hægt upp í 90°C og haldið þannig í eina klukkustund. Suðan má alls ekki koma upp. Síðan er slökkt undir og látið kólna rólega, t.d. yfir nótt. Að þessu loknu er ullin skoluð og þá fyrst er hún tilbúin til litunar.

Þegar ullin er komin í litunarpottinn er hann hitaður upp í 85° til 90° og haldið þannig í eina klukkustund. Þess þarf að gæta að ullin sé alltaf í kafi. Síðan er slökkt undir og ullin látin kólna í leginum áður en hún er þvegin og skoluð og að endingu hengd til þerris.

Nýlitaðar hespurnar hanga til þerris

Nýlitaðar hespurnar hanga til þerris

Til er önnur aðferð sem tekur lengri tíma og er einkum notuð á greinar og lyng, rætur og skófir. Þessar jurtir þurfa langa suðu til að litarefnin losni úr þeim og festist í ullinni, álmeðhöndlun er þá óþörf. Jurtirnar eru settar í marga litla poka úr grisju eða gömlum nælonsokkum sem eru látnir liggja í bleyti í nokkra klukkutíma áður en blaut ullin er sett í pottinn. Afar mikilvægt er að rúmt sé um jurtir og ull því að annars er mikil hætta á að ullin þófni, það borgar sig því að spara ekki vatnið. Litunarlögurinn er hitaður upp í 85° til 90° og haldið þannig í allt að 12 klukkustundir, eftir því hve sterkur liturinn á að vera. Með þessari aðferð er hægt að leika sér með litinn með því að taka eina hespu upp eftir eina klukkustund, aðra eftir tvær klukkustundir,  enn aðra eftir þrjár klukkustundir og svo koll af kolli til að fá marga styrkleika af sama litnum.

Eftirlitun og blæbrigði

Að grunnlitun lokinni er hægt að prófa sig áfram með ýmis efni, svo sem sýrur, basa og málmsölt eins og járn og kopar, til að fá mismunandi blæbrigði. Fyrr á öldum safnaði fólk keytu eða hlandi með því að hella úr koppum sínum í tunnu og síðan var ullin þvegin úr þessu á vorin í stað sápu. Keytan var notuð til að skerpa jurtalitina en nú til dags má fá sömu áhrif með salmíaki. Það er samt ekkert sem mælir á móti því að nota hlandið ef einhver vill spreyta sig.

 

 

Heimild: Sigrún Helgadóttir og Þorgerður Hlöðversdóttir: Foldarskart í ull og fat. Jurtalitun Reykjavík 2010There are no comments

Add yours