L1110620

Rusl í Reykjavík

Verkefnið Rusl í Reykjavík er myndrænt rannsóknarverkefni. Hugmyndin er að skoða með myndum hvernig gengið er um borgina. Er borgarbúum annt um sitt nánasta umhverfi og ganga um samkvæmt því eða kasta þeir frá sér eða skilja eftir rusl í hugsunarleysi og vonast til þess að norðanvindurinn feyki því úr augnsjón?

Eftir að Þórdís Erla ljósmyndari hafði kveikt áhuga minn á verkefninu var komið að mér að framkvæma hlutina. Ég varð mér úti um kort af Reykjavík og hringaði upp svæði á kortinu sem ég hafði áhuga á að skoða. Ég gaf mér tíma á hverjum degi til þess að ganga um fyrirfram ákveðið svæði og mynda það rusl sem á vegi mínum varð, svolítið eins og veiðimaður í leit að bráð.

Það kom mér á óvart hversu mikið rusl liggur á víðavangi um borgina. Um alla borg mátti sjá rusl í vegaköntum, í runnum, í portum, á bílastæðum og á grænum svæðum á milli hverfa. Mestmegnis er þetta plast og umbúðir utan af skyndibita og sígarettum en einnig mátti sjá hluta af búslóðum, fatnað, hjól, jólatré, sjónvörp, klósett og ýmislegt annað. Minnst af rusli mátti sjá í vesturborginni og mesta ruslið mátti sjá í austurborginni. Ýmsar spurningar vöknuðu hjá mér: Er einhver stefna hjá borginni varðandi þrif og umgengni? hver er að þrífa borgina? hvernig er það gert? er borgin yfirhöfuð þrifin? hefur viðhorf fólks til umhverfi síns breyst? hefur kreppan eitthvað með þetta að gera? er fólk orðið svo innilokað í eigin hversdags amstri að það sér ekki eða hefur ekki áhuga á umhverfi sínu? hverjir henda frá sér rusli á víðavangi og af hverju? er skortur á því að fólki sé hreinlega kennt að ganga snyrtilega um? ætli það væri hægt að gera úttekt á því hvers kyns rusli er oftast hent á víðavangi t.d. tyggjói og umbúðum utanaf skyndibita og setja á þessar vörur ruslaskatt? víða má sjá gangstéttar “betrekaðar” af tyggjói þó að ég hafi ekki myndað það í þessu verkefni. Ég fór einnig að hugsa um atvinnuleysi í borginni og að það væri eflaust hægt að virkja stóran hluta fólks á atvinnuleysisskrá til þess að þrífa borgina. Annað sem ég tók eftir var krot. Ég hef ekki veitt því sérstaka athygli áður en mjög mikið ber á kroti út um alla borg. Krot og rusl eiga oft samleið á þeim svæðum sem ég skoðaði. Það er dálítið eins og að við búum í tveimum heimum eða einhverskonar tvískinnungi. Annars vegar er vitundar vakning um endurnýtingu út frá umhverfissjónarmiði, við flokkum ruslið og förum með í þartilgerða gáma á grenndarstöðum og flöskur í endurvinnsluna. Sumir kaupa maispoka í ruslið í stað þess að nota plastpoka og aðrir taka með sér taupoka í búðina þegar þeir kaupa inn í matinn. Sumir gera þetta eflaust allt. Og annars vegar hendum við frá okkur sígarettum, tyggjói, umbúðum o.s.frv. Skiptist fólk í fylkingar hvað rusl og umgengni varðar? hefur menntunarstig, aldur og staðsetning búsetu eitthvað með þetta að gera? eða getum við skrifað þetta allt bara á norðanvindinn?

Látum myndirnar tala sínu máli.There are no comments

Add yours