Diskur

Skólamáltíðin

Burritos á diskiMaturinn í skólanum

Samloka og kalt kakó á brúsa

… Eða sykrað vatnsþynnt ávaxtaþykkni og kex þótti einu sinni ágætt nesti skólabarns á Íslandi. Í dag eru kröfurnar aðrar og starfsfólk skólamötuneyta keppist við að framreiða máltíðir sem standa undir væntingum foreldra og barna. Máltíðin má ekki kosta mikið en á að vera næringarrík og helst laus við aukaefni. Hún þarf að sjálfsögðu að falla í kramið hjá krökkunum sjálfum.

Tilheyrir hollur matur draumaheimi?

Í draumaheimi fengju börnin okkar lífrænan og ljúffengan mat á hverjum einasta degi og sjálf myndu þau aldrei, aldrei fúlsa við hollum, kjarngóðum máltíðum! Raunveruleikinn er aðeins annar enda hefur takmarkað fjármagn komið niður á gæðum matarins. Í sumum skólum er aðstaðan þannig að ekki er hægt að elda matinn frá grunni og á borðum oft lítt spennandi aðkeyptur matur. Skólamáltíðin er því krefjandi verkefni sem tekst misjafnlega vel. Það kemur fyrir á bestu bæjum að stór hluti matarins endi ofan í ruslatunnu en ekki maga. Það er ekki einfalt að breyta þessu en margt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Buff og kartöflur

Sameiginlegur gagnagrunnur mötuneyta

Hjá Reykjavíkurborg er nú unnið að sameiginlegum gagnagrunni fyrir yfirmenn skólamötuneytanna til að samræma hráefniskaup, matseðla og verð. Uppskriftir eru skoðaðar með hliðsjón af ráðleggingum landlæknisembættisins varðandi næringarinnihald. Gagnagrunnurinn kemur til með að innihalda upplýsingar um verð frá byrgjum og reikna sjálfkrafa út kostnað við einstaka rétti. Réttir sem hafa reynst vinsælir meðal barnanna verða yfirfarnir, næringarinnihald skoðað og leiðir fundnar til að elda þá á heilnæman og hagstæðan hátt. Það verður ekki skylda að nýta grunninn, en án efa taka margir yfirmenn mötuneytanna þessum stuðningi fagnandi.

Hugmyndir barnanna

Raddir barnanna sjálfra mættu líka fá hljómgrunn. Það er útilokað að gera öllum til hæfis þegar kemur að samsetningu matseðils, en ábendingar frá þessum ungu viðskiptavinum mötuneytanna hljóta að bæta útkomuna. Sér í lagi ef fagfólkinu tekst að útfæra óskirnar á hollan máta.

Mótun matseðilsins er tilvalin leið til að auka lýðræðisþátttöku barna

Víða í skólakerfinu er unnið að aukinni lýðræðisþáttöku barna og mótun skólamatseðilsins er tilvalið tæki til þess verkefnis. Í skólunum sjálfum væri svo hægt að styðjast við grunninn góða og halda kosningu um hvað er í matinn á völdum dögum.

Foreldrar treysta á mötuneytin

Fyrstu árin í lífi barnsins eru flestir foreldrar meðvitaðir um hvaða næringu það þarf en svo missa sumir þráðinn. Þegar kemur að því að fylgjast með því sem börnin fá í hádegismat á 10 ára grunnskólagöngu treysta margir á kerfið. Foreldrar mynda stóran þrýstihóp sem á að sjálfsögðu  að láta þessi mál sig varða. Og með raunverulegum stuðningi yfirvalda nær starfsfólk skólamötuneyta  vonandi því markmiði að bjóða upp á næringarríkar máltíðir sem börnin fúlsa ekki við.

Ef ég mætti ráða

Til gamans að lokum: Hér eru óskir um skólamat frá nokkum börnum á aldrinum 7-13 ára.

Óskamatseðill barna

 

 

 Hefurðu áhuga á að sjá hvað er á matardiski grunnskólabarns í Reykjavík?

Halla Sólveig Þorgeirsdóttir og Rúna Thors tóku ljósmyndir í skólum borgarinnar á tveggja vikna tímabili og útkomuna má sjá hér í Lifandi vefriti.

 

 

 

Creative Commons leyfi
Myndir með þessari grein eftir Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur eru birtar með Creative Commons Tilvísun-EkkiÁgóðaskyni 4.0 Alþjóðlegt afnotaleyfi.There is 1 comment

Add yours

Post a new comment