blueberries-184448_640

Að vera vegan á Íslandi

Veganismi hefur lengi verið til en ekki náð mikilli útbreiðslu Íslandi en sá lífsstíll felur í sér að fólk forðast allar dýraafurðir í sínum lífsstíl af heilsufars-, siðferðis- og/eða umhverfisástæðum. Harpa Sif Arnarsdóttir og Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir hafa verið vegan í nær 3 ár en verið grænmetisætur í töluvert lengri tíma. Þær telja að viðhorfsbreyting sé að eiga sér stað og hafa orðið varar við fjölgun grænmetisæta og vegan fólks á undanförnum árum. Ég settist niður með þeim á dögunum í miðbæ Hafnarfjarðar og spurði þær stuttlega hvað felist í því að vera vegan og hvernig er að vera vegan á Íslandi.

Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir

Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir

Hvað er að vera vegan?

Sæunn: Vegan er grænmetisæta sem borðar engar dýraafurðir og þar með talið mjólkurvörur, egg og hunang og reynir með þessu að lágmarka þjáningar dýra og skaðsemi dýrahalds.
Harpa: Það er misjafnt hversu langt fólk fer með þetta, en yfirleitt gengur vegan fólk ekki í pelsum, leðri eða ull eða notar snyrtivörur sem hafa verið prófaðar á dýrum eða innihalda dýraafurðir. Sá sem skilgreinir sig sem vegan er klárlega að reyna að forðast dýraafurðir eins mikið og hann getur. Maður gerir alveg sitt besta, dýraafurðir leynast allsstaðar og oft þyrfti sérfræðing til að koma auga á þær.

Hvernig finnst ykkur viðhorfið gagnvart veganisma á Íslandi?

Harpa Sif Arnarsdóttir

Harpa Sif Arnarsdóttir

Sæunn: Það hefur breyst rosalega mikið síðustu 1-2 ár. Fólk vissi yfirhöfuð ekki hvað vegan var áður en þetta komst í umræðuna, aldrei heyrt orðið. Þá voru viðbrögðin við þessu svolítið hörð en það hefur breyst, núna er fólk orðið meira forvitið.
Harpa: Maður vill frekar vekja athygli á þessu á jákvæðan hátt en stundum er það erfitt þegar maður lendir í mikilli vanvirðingu, það er eiginlega það versta. Þetta er svo fjarlægt fyrir sumum og þetta hreyfir í raun við grunninum á þinni eigin tilveru. Mörgum finnst eins og það sé verið að gera lítið úr sínum hefðum eins og til dæmis jólahefðinni, að borða alltaf hamborgarahrygg eða annað kjöt.
Harpa: Fyrst var voðalega mikið hlegið að manni, maður sagður vera vitleysingur og svolítið eins og það hlakkaði í fólki, að sjá mig mistakast. Svo þegar tíminn líður og fólk sér að þetta er hægt, þá breytast viðhorfin.

Hvað teljið þið að þurfi að breytast, svo að þetta verði algengara?

Sæunn: Það þarf auðvitað að upplýsa fólk. Í fyrsta lagi þurfa ekkert allir að verða grænmetisætur heldur hafa allir gott af því að auka magn grænmetis í fæðunni sinni, það er óumdeilt. Í öðru lagi eru það siðferðispælingarnar, að spurja sjálfan sig til dæmis hvort það sé siðferðislegur konflikt að við borðum ekki hunda en við borðum kjúkling. Í þriðja lagi eru Sameinuðu þjóðirnar með hvert ákallið á fætur öðru um að fólk þurfi að draga úr kjötneyslu og auka grænmetisneyslu til að snúa við slæmum áhrifum á jörðina. Þetta eru þrír þættir sem mér finnst að samfélaginu beri siðferðisleg skylda að upplýsa sjálft sig um, og ef að það gerist þá verður viðhorfsbreyting.
Harpa: En grænmetisætum og vegan fólki er að fjölga á Íslandi, fólk er mikið að leita til manns og spyrja um ráð tengd þessu.

Hvað haldið þið að sé stærsti misskilningurinn í tengslum við að vera vegan?

Harpa: Ég verð eiginlega að fá að segja eina mjög lýsandi sögu. Það skapaðist eitt sinn umræða á kaffistofunni í vinnunni um eina manneskju sem var grænmetisæta. Þá var umræðan þannig að ekki einungis væru grænmetisætur gráar á litinn og veiklulegar og að missa hárið, heldur var eins og lífsneistinn hefði bara horfið úr augum hennar. Þessar vægast sagt skondnu og furðulegu umræður gengu í hálftíma og ég sit hlusta og svo ákvað ég bara að segja í léttum dúr að ég væri grænmetisæta og spurði hvort að það vantaði lífsneistann í augun mín. Það féllu allir í stafi og báðust afsökunar, en ég tók þessu ekkert persónulega. Við erum alltaf dæmd eftir allt öðrum kríteríum, t.d. þegar einhver “venjulegur” verður veikur eða fær einhvern kvilla þá er flensa að ganga en þegar grænmetisæta verður veik þá er það af því að hún er með næringarskort. Ég veit ekki hvaðan fólk fær þessa ýktu stereótýpísku ímynd af grænmetisætum því af öllum sem ég þekki þá er engin svona.
Sæunn: Fólk heldur líka að þetta sé rosalega mikið vesen, mikil fyrirhöfn og ógeðslega dýrt, það er mikill misskilningur. Þetta er ódýrara matarræði en flest annað í grunninn og ekkert flóknara en önnur eldamennska. Og það að maður fái ekki prótín eða öll næringarefni ef maður borðar ekki kjöt er alveg fullkomin misskilningur.
Sæunn: Fólk gerir oft ekki ráð fyrir því að það sem er utan þess venjulega geti verið rétt og gott. Fæðan verður heldur ekki einhæfari, það er óendanlega flóra í jurtaríkinu sem maður getur alveg misst sig í. Fólk horfir alltof oft á þennan dæmigerða disk sem sýnir hlutfall matarins og svo þegar kjötið er tekið í burtu, þá myndast gat sem fólk fyllir kannski ekki upp í.

Svo eru margir vegan sem tala um almennt betri andlega líðan eftir þessar breytingar, fólk verður einhvern veginn friðsælli. Þegar maður er búin að brjóta einn svona múr þá er auðveldara að brjóta næsta í kjölfarið.

Harpa: Það eru einnig margir sem halda að þetta sé einhverskonar megrun og það er mjög mikilvægt að uppræta þann misskilning því það skapar mikla fordóma gagnvart vegan fólki.
Harpa: Grænmetisætan er heldur ekki alltaf sama manneskjan, fólk er í þessu af mismunandi ástæðum, sumir gera þetta af dýravelferð og reykja svo pakka á dag og er eiginlega skítsama um sjálfan sig. Svo eru aðrir sem eru að gera þetta af heilsufarsástæðum og er alveg sama um dýrin. Ég held þó að flestir byrji einhversstaðar, svo er margt sem maður meðtekur í þessu, þetta er lausn við svo mörgu að maður trúir því eiginlega ekki. Ég byrjaði af siðferðisástæðum en sá síðan hvað þetta var að gera gott fyrir heilsuna mína og svo fattaði ég hvað þetta skiptir miklu umhverfislega séð og fyrir hagkerfi samfélagsins. Ísland hefur tækifæri á að vera mekka lífrænnar ræktunar því við þurfum varla að nota skordýraeitur hérna og við eigum fullt af raforku sem við gætum notað til að knýja matvælaframleiðslu, lífræna og heilbrigða. Stundum skilur maður ekki að fleiri skuli ekki hafa áhuga á þessu eða að maður geti yfirhöfuð mætt neikvæðu viðhorfi.  

Sjáið þið fyrir ykkur einhverskonar vakningu?

Sæunn: Ég held að hún sé bara hafin, mér finnst það liggja í loftinu, fólk er orðið miklu móttækilegara fyrir þessu.
Harpa: Ég hef svo mikla trú á þessum málstað og ég hef ekki ennþá fengið mótrökin við því að vera vegan eða grænmetisæta.
Sæunn: Svo eru margir vegan sem tala um almennt betri andlega líðan eftir þessar breytingar, fólk verður einhvern veginn friðsælli. Þegar maður er búin að brjóta einn svona múr þá er auðveldara að brjóta næsta í kjölfarið.
Harpa: Alveg sammála, það er svo mikið stolt og gleði sem fylgir því að hafa náð þessum árangri, þá langar manni að halda áfram. Færir manni hálfgerðan innri frið.There are no comments

Add yours