Litla glæpakvendið

Einu sinni var átta ára gömul stúlka send út í búð og átti að koma með allan afganginn heim. En þar sem hún hafði sjaldan peninga milli handanna þá stóðst hún ekki freistinguna og eyddi öllum aurunum í sælgæti. Þegar heim var komið var hún auðvitað spurð um peningana og til að bjarga sér ákvað hún að kenna helstu hrekkjasvínunum í þorpinu um að hafa ráðist á sig og hrifsað þá til sín. Þetta voru tvö systkini sem höfðu einstaklega slæmt orð á sér og það var hægt að kenna þeim um nánast hvað sem var, þetta átti bara ekki að geta klikkað. Þau höfðu svo margt á samviskunni að þau munaði ekkert um að taka smávegis á sig til viðbótar.

Nema hvað litla stúlkan átti eldri systur sem í einhverju bráðlæti hringdi heim til hrekkjasvínanna til að kvarta undan þessum meinta þjófnaði. Mamma þeirra kom í símann og þvertók alveg fyrir að börnin hennar hefðu verið að stela einhverjum peningum, hún væri búin að hafa þau fyrir augunum allan daginn og þau hefðu ekki gert neitt svona. Og svo væru þau algjörir englar og réðust aldrei á önnur börn. Sem var ekki alveg rétt hjá henni en í þetta einasta skipti voru þau alveg saklaus. Það var nú algjör óþarfi af stóru systur að vera að rjúka svona í símann en sú litla gat ekki stöðvað hana, þá hefði hún þurft að viðurkenna það sem hún gerði við peningana. Svo að hún hlustaði bara á þetta fáránlega símtal og steinþagði, hún gat ekkert annað gert.

En þannig lauk málinu ekki. Stundu síðar hringdi dyrabjallan og úti var lögregluþjónn sem spurði eftir þeirri litlu, hvort hún vildi gjöra svo vel og koma með niður á stöð. Þar var sú gamla mætt og nú hófst yfirheyrslan. Sú litla gat ekki haldið áfram að skrökva  –  en það var heldur ekki svo auðvelt að draga í land þegar málið var komið svona langt. Hún var í mikilli klemmu. Og alveg stjörf af hræðslu við þessa frenju, mömmu systkinanna, hún hafði ekki minna orð á sér en afkvæmin. Svo að hún aulaði því út úr sér að henni hefði sýnst þau taka peningana og með það slapp hún.

Af þessu má læra að ef þú ætlar að skrökva, láttu þá ekki koma upp um þig.

 

Ljósmynd: Guðmundur Hannesson

Heimild: www.ljosmyndvikunnar.is vefur Ljósmyndasafns Reykjavíkur

 

 

 There are no comments

Add yours