9283849102

Samveran við sjónvarpsskjáinn

Þegar ég var lítil safnaðist öll fjölskyldan saman í stofunni á kvöldin og horfði á sjónvarpið (nema á fimmtudögum auðvitað). Það skipti þá engu hvort verið var að horfa á Dallas, Derrick, Tomma og Jenna, Klaufabárðana eða Staupastein. Allir sátu saman, helst þrjár kynslóðir, og drukku í sig dásemdina. Þessi hegðun var þó ekki bara bundin við stofuna heima heldur stofur allra landsmanna. Lungi þjóðarinnar settist til dæmis niður á sama tíma á hverju sunnudagskvöldi og horfði á Húsið á sléttunni. Svo ræddi fólk um þætti gærkvöldsins þegar það hittist, enda var bara ein dagskrá í boði fyrir alla en hún var í Ríkissjónvarpinu. Það má því segja að sjónvarpsáhorf hafi verið félagslegt fyrirbæri.

Nú til dags horfir fólk hins vegar ekki einungis á þætti í sjónvarpinu heldur einnig í tölvunni, spjaldtölvunni, ipodinum, símanum o.s.frv. Fjölskyldumeðlimir sitja jafnvel hver í sínu horni og horfa á sitt enda höfðar ekki alltaf það sama til fullorðinna og barna eða unglinga. Þessi þróun er því kannski ekki óeðlileg. Í dag getur fólk líka horft á það sem því sýnist þegar því hentar, það er ekki nándar nærri eins bundið af sjónvarpsdagskránni og áður. Samt held ég að það séu ennþá ákveðnir þættir sem fólk horfir á saman. Þá á ég við annað hvort á sama stað og/eða á sama tíma eins og t.d. Júróvisjón, enska boltann, landsleiki, Áramótaskaupið og fleira í þeim dúr.

Þrátt fyrir að fólk sé í auknum mæli farið að horfa á sína uppáhaldsþætti í einrúmi er ekki þar með sagt að það sé félagslega einangrað sem áhorfendur sjónvarpsefnis. Þar spila samfélagsmiðlarnir t.d. stórt hlutverk. Tökum sem dæmi Júróvisjónkeppnina, á meðan hún er sýnd má fylgjast grannt með Facebook stöðuuppfærlsum og Twitter tístum tengdum henni. Júróvisjónnördar eins og ég geta því fengið stemninguna beint í æð og að sama skapi sett inn sínar eigin hugsanir og upplifanir á meðan á útsendingu stendur. Fólk getur átt í opnu samtali á netinu á meðan á keppninni stendur. Þetta gerir fólki kleift að efla félagsleg tengsl við fólk með sömu áhugamál. Eins eru til gagnvirkar aðdáendasíður á netinu, í kringum hina ýmsu sjónvarpsþætti, þar sem fólki gefst færi á að vera partur af ákveðnu samfélagi í kringum sína uppáhaldsþætti.

Er því ekki hægt að draga þá ályktun að sjónvarpsáhorf í félagslegum skilningi hafi ekki glatast með tilkomu tækninnar heldur færst úr stofunni yfir á internetið?There are no comments

Add yours