8422_1137979326482_2085640_n

Afleggjarinn

downloadEf manni líkar við bók er í henni eitthvað sem maður þráir að hafa í sínu eigin lífi, sagði einhver. Til dæmis gróðurhús og rækta tómata og rósir. Eða að leggja land undir fót og vinna við ræktun í klaustursgarði í fjarlægu landi.

Afleggjarinn, skrifuð af Auði Övu Ólafsdóttur var jólabók árið 2007. Gagnrýnendur áttuðuð sig á bókinni á vordögum 2008 og hefur uppgangur hennar og höfundarins aukist jafnt og þétt síðan. Þá var hún gefin út á ítölsku, þýsku og frönsku.  Nú er Sýrlenskt útgáfufyrirtæki nýbúið að kaupa allar bækur Auðar Övu og margir fínir pennar hafa skrifað um bókina víðs vegar um heiminn.

Sagan er sprottin úr íslenskum jarðvegi en höfundurinn segist aldrei hafa verið hrifin af víkingum sem skildu eftir sviðna jörð. Söguhetjan okkar er andstæða þeirra. Sagan er þroskasaga ungs manns sem fer út í heim með rósasprota til að gefa en ekki til að ræna banka.

Auður býr til einstaka vitund í þessari bók. Það er svo heillandi manneskja sem þarna birtist, ekki bara karlmaður heldur manneskja. Ungur strákur nýorðinn faðir fyrir tilviljun.  Hann er að fara að vinna í fallegasta rósagarði í heimi og hann ætlar að gefa rósasprotana frá áttablaða rós úr gróðurhúsinu

Auður Ava Ólafsdóttir

Auður Ava Ólafsdóttir

Þetta er þroskasaga, syndaaflausn fyrir syndir forfeðranna og kreppunnar. Kynjahlutverkin sem eru fastmótuð í okkar menningu fara á flot. Í sögunni fer hetjan inn í hlutverk þar sem þurrkuð eru út mörk og er  kynvitund hans fljótandi. Hann hefur áhuga á líkömum en ekki alveg ljóst hvort það er kvenna eða karla.

Auður Ava býr til nýja karlmennskuímynd, allt öðru vísi en sést í auglýsingum nú til dags. Hún aftengir  steríótýpurnar, konurnar eru uppteknar af frelsinu og karlmennirnir í umhyggjunni.

Það sem gerir Auði svona sterka og Afleggjarann að þessu verki sem bókin er, er m.a. trúarlegi táknheimurinn sem er mjög markviss en allt liggur þetta samt undir yfirborðinu. Fínlegur þráður sem fléttast þarna í gegn. Það er  t.d. talað um síðasta kvöldverðinn og þeir eru þrír sem neyta hans eins og hin heilaga þrenning. Svo er það barnið sem er ekkert venjulegt barn, heldur teikn um að það sé alveg einstakt. Full ástæða er til að fá sér bókina og er hún enn verðmætari í nýrri útgáfu með nýrri yndislega fallegri bókakápu sem er unnin af Ragnari Helga Ólafssyni.

(Byggt að hluta til Víðsjárþætti í júlí 2013, þar sem rætt var við rithöfundinn Auði Övu Ólafsdóttur og Björn Þór Vilhjálmsson bómenntagagnrýnanda)

 

  There are no comments

Add yours