Þorgerdur Ólafsdóttir

Nútímalist á nýjum tímum

Nýlistasafnið  er mjög merkilegt safn sem í daglegu tali er oftast kallað Nýló. Safnið var stofnað árið 1978 og hefur alla tíð verið rekið af myndlistarmönnum. Inni á safninu er að finna mörg verk þeirra listamanna sem margir hverjir eru að stíga sín fyrstu spor í listaheiminum en auk þess varðveitir safnið eldri verk. Ég heimsótti safnið á nístingsköldum eftirmiðdegi og spjallaði við framkvæmdarstjóra þess, Þorgerði Ólafsdóttur, um nútímalist og hvernig við upplifum myndlist í dag.

Nýlistasafnið stendur við Skúlagötu 28 en húsnæði safnsins var áður kexverksmiðjan Frón. En safnið mun flytja úr húsakynum sínum á vordögum Ótrúlegt en satt þá tekur á móti manni kexlykt þegar gengið er inn í safnið. Niður í olíubornum kexvélum og lætin í sveittum starfsmönnum sem hamast við að pakka mjólkurkexinu í kassa eru þó víðs fjarri. Í staðinn er tjáning mannsins allsráðandi. Því nú á nútímalistin þetta rými.

Nýló

Fyrir utan nýlistasafnið

Þorgerður segir að Nýló leggi mikla áherslu á að sýna verk eftir ungt myndlistarfólk ásamt því að halda sýningar og varðveita verk margra þekktra myndlistarmanna. Aðsóknin í safnið hefur verið góð samkvæmt Þorgerði. ,,Það komu í kringum tíu þúsund manns í safnið í fyrra. Það er ekki alltaf opið og stundum er tveggja til þriggja vikna uppsetningartími og þá er safnið lokað á meðan. En það er rosalega vel mætt á allar opnanir og eftir að Kex hostel opnaði þá hafa erlendir ferðamenn sótt safnið mikið. Það sem er þó að gerast núna er að listasöfn eru að fara úr miðbænum því það er verið að byggja hótel víða og leiguverð er að hækka mikið. Það er því hætta á því að minni listasöfnin hörfi frá miðborginni sem er náttúrlega ekki gott,“ segir Þorgerður.

Ungt fólk og nútímalist

Mig lék forvitni að vita hvort almenningur þekki nútímalist nógu vel í dag. Þorgerður segir að unga kynslóðin sé meðvitaðri um nútímalist en margan grunar. Kennsla skipir þar líka miklu máli. ,,Margir ungir krakkar þekkja listamenn sem ég vissi ekki einu sinn af fyrr en ég byrjaði í Listaháskóla Íslands,“ segir Þorgerður og bendir á að í dag sé hægt að nálgast myndlist á netinu með aðgengilegum hætti á vefsíðunni Sarpur.is. Þorgerður hefur þó sínar efasemdir um kosti netsins.

Netið og nútímalist

Mörg listasöfn hafa sett á laggirnar rafræn listasöfn. Þá getur hver sem er farið inn í ákveðin söfn og þrætt sig í gegnum sýningarsali og upplifað listaverkin í gegnum tölvuskjáinn. Þorgerður telur að fólk muni þó væntanlega alltaf þurfa að upplifa myndlistarsýningar með berum augum. ,,Sjónræna upplifunin er mjög mikilvæg og ég vona að hún verði alltaf yfirsterkari og fólk skrolli ekki bara á netinu og skoði þar sýningar. Heldur komi á söfn og upplifi sýningar með sínum eigin augum,“ segir Þorgerður og segir að Sarpur.is geti vakið áhuga fólks á myndlist: ,,Ég held og vona að Sarpur leiði af sér aukna meðvitund og skilning á því hvað við búum að sem mikil menningarþjóð. En þetta með netið er uggvænlegt, er það óendanlegt? Hvað gerist ef það hættir? Ég á einn vin sem er svartsýnn með þetta og trúir því að gerð verði hryðjuverkaárás á netið. Hvað gerist þá? Þá náttúrlega hrynur allt. Þess vegna þurfum við að passa upp á það að eiga afrit í föstu formi.“

Það er búið að ögra

Þorgerður segir að myndlist í dag standi á ákveðnum tímamótum því það er búið að ögra listinni á alla vegu og fólk þekkir óhefðbundna myndlist meira nú en áður. ,,Nú er búið að tryggja að fólk þekki hugmyndalist þegar það sér þannig verk en það er mjög skemmtilegt að tala um myndlist við afa minn sem ólst upp í torfbæ. Kynslóðirnar breytast og eldri kynslóðir halda oft að list sé eingöngu bundin við málverk. Myndbandalist og gjörningar eru til að mynda að vekja meiri athygli núna en áður fyrr og fólk þekkir slíka list betur. Það kemur í raun ekkert lengur á óvart í listinni. Það er búið að ögra miðlinum á alla vegu,“ segir Þorgerður.

Hvað er næst?

Það hafa eflaust einhverjir heyrt af sögunni um ræstitækninn sem eyðilagði listaverk sem metið var á milljónir dollara. Myndlist í dag er nefnilega oft á tíðum ekki alltaf augljós. Enda þótt nútímalist í dag sé nánast hætt að koma fólki á óvart eru alltaf einhverjir sem skilja ekki nútímalist. Það getur nefnilega verið mjög erfitt að átta sig á henni. Sérstaklega þegar myndlistin færist nær okkar daglega lífi. Eins og Þorgerður bendir á þá er til að mynda farið að blanda saman stærðfræði og myndlist. ,,Myndlist er fyrirbæri sem hefur marga fálma og getur sett sig saman við ýmisskonar fög. Til að mynda er nú stærðfræði og myndlist kennd. Í minni myndlist er ég t.d. að vinna með veður- og tónlistarkerfi sem ég set svo í samhengi við eitthvað annað. Myndlist er alltaf að verða meira og meira heimspekilegri,“ segir Þorgerður. Í lokin bendir hún á að það er kannski óþarfi að skilja myndlist. Hún á bara að vera og vekja mann til umhugsunar um lífið og tilveruna.There are no comments

Add yours