Embarkation for Cythera

Tíska og samfélag

Brotin tískuvitund

Níundi áratugurinn - blásið hár og herðapúðar

Níundi áratugurinn tíska – blásið hár og herðapúðar

Gamlar ljósmyndir í fjölskyldualbúminu geta stundum verið hrikalega hallærislegar. Blásið úfið hár, pastellitaðir plasteyrnalokkar, hálstau og herðapúðar var klæðnaður sem var algengur hjá mörgum. Það sem einu sinni þótti meiriháttar smart verður illskiljanlegt. Kannski brást tískuvitund manna gjörsamlega ef hún var þá einhvern tíma til staðar. Eða bjó kannski eitthvað annað að baki?

Ísland á níunda áratugnum

Áttundi og níundi áratugurinn einkenndist af miklu umróti í jafnréttisbaráttunni á Íslandi, meðal annars með stofnun samtakanna Rauðsokkur. Þátttaka kvenna í atvinnulífinu jókst til muna og umræðan fór í gang um að kona ætti að gefa kost á sér í forsetaembættið. Íslenskar konur töldu nauðsyn að fara í herferð gegn kynbundnu óréttlæti, meðal annars var krafan um réttinn til getnaðavarna og fóstureyðinga ofarlega á lista.

Nokkrir atburðir settu einnig mark sitt á kvenréttindabaráttuna á þessum árum. Kvennafrídagurinn 24. október árið 1975 en þann dag lögðu um 90% íslenskra kvenna niður vinnu og söfnuðust saman á útifund á Lækjartorgi. Hinn viðburðurinn er 30. júní 1980 þegar ljóst var orðið að Vigdís Finnbogadóttir hafði verið kosin forseti Íslands sem gerði hana þar með að fyrsta þjóðkjörna kvenkyns forseta í heimi.

Jane Fonda

Jane Fonda

Aðrir viðburðir sem höfðu gríðarleg áhrif á ungt fólk hér á landi á níunda áratugnum var hin geysivinsæla kvikmynd Flashdance sem fjallaði um unga konu sem logsauð á daginn og æfði fyrir inntökupróf í ballettskóla á kvöldin. Vinsældir söngkonunnar Madonnu má ekki gleyma, hún ögraði ítrekað gömlum gildum með tónlist sinni og klæðnaði. Eróbikk varð mál málanna hjá flestum unglingum og Jane Fonda var aðalskvísan hjá heilsuræktargúrúum á þessum árum.

Frakkland á 17. öld

Önnur dæmi um áhrif samfélagsbreytinga sem hafði mikil áhrif á klæðnað manna var Rókókó listastefnan sem spratt fram í Frakklandiá á sautjándu öldí. Rókókó hafði gífurleg áhrif, meðal annars á listmálun, arkitektúr, innanhússhönnun, bókmenntir og fatnað. Stefnan þróaðist sem andsvar hirðarinnar í Versölum gegn tignarlegum, trúarlegum og formföstum áhrifum Barokk stefnunnar. Barokk var áhrifamikil á tíma Lúðvíks XIV (1638-1715) frakkakonungs. Lúðvík hafði aðalinn nálægt sér á Versölum en hélt þeim uppteknum við veisluhöld og ýmissa annarra tilgangslausra athafna sem auðveldaði honum stjórn ríkisins.

Ýmsum aðalsmönnum fór að leiðast tilbreytingarleysið og fóru að leita að annarri uppfyllingu í lífi sínu. Svarið fundu þeir margir í málverkum sem voru undir áhrifum málarans Rúbíns. Málverk sem lögðu áherslu á rómantík. Ein af þeim þekktari er verkið Embarkation for Cythera eftir málarann Jean-Antoine Watteau (1684 –1721). Þetta er talið hafa ýtt undir að hirðin fór að líta öðrum augum á lífið og frjálsræði í samskiptum manna innan hirðarinnar jókst.

 

Embarkation for Cythera

 Jean-Antoine Watteau The Embarkation for Cythera 1717


Þegar Lúðvík XV (1723–1774) tók við konungsdæminu barnungur, varð ákveðin losun á siðareglum innan hirðarinnar, breytingar sem spegluðust í Rókókó. Ljósir litir, sveigðar línur, leikgleði og miklar skreytingar einkenndu listina. Léttúð og þokki leysti af hólmi þá alvöru og dramatík sem einkenndi Barokk.

Madame de Pompadour

Jeanne Antoinette Poisson, Marquise de Pompadour, opinber hjákona Lúðvíks XV

Þetta fræga málverk af hjákonu Lúðvíks IV Madame de Pompadour er nokkuð þekkt dæmi um áhrif samfélagsbreytinga á tísku. Á þessari mynd klæðist hún íburðarmiklum og vel skreyttum silkikjól í pastellitum. Fíngerðar blúndupífur á ermum flæða fram í takt við léttleika silkisins.

Alþjóðavæðing

Tískan árið 2014 er innblásinn af alþjóðavæðingunni. Nánast allt er leyfilegt, arabísk, suður-amerísk og asísk áhrif eru orðin viðtekin venja. Áherslan er á að skera sig úr fjöldanum og skapa sinn eigin stíl, sem hentar stöðu og persónu hvers og eins.

Tískan á níunda áratugnum endurspeglaði ákveðna menningu, menningu sem var hluti af því samfélagi sem var við lýði á þessum árum. Fólk gerði sér ekki grein fyrir því þá, frekar en í dag. Fæstir eru meðvitaðir um hve miklum alþjóðlegum áhrifum tískan er í dag.

Endurunninn kjóll

Endurunninn kjóll frá Aftur

Nú er nokkrar verslanir að selja endurunninn og notaðan fatnað. Bútasaumaðir kjólar og buxur úr eðalefnum, unnin upp úr gömlum flíkum eru vinsæl meðal ákveðinna hópa.

En hvaðan ætli áhugi á þannig fatnaði hafi kviknað. Jú, ætli umræðan um umhverfismál og loftlagsbreytingar eigi ekki einhvern hlut að máli? Það hefur lengi verið vitað að manneskjan notar fatnað og fylgihluti til að tjá sig. Oft er hægt er að lesa stöðu, lífstíl og persónuleika fólks gegnum fataval. Hugmyndir um kvenréttindi, umhverfismál og listir hafa greinilega haft áhrif á klæðnað okkar.

Tískan á níunda áratugnum endurspeglaði baráttuna fyrir kvenréttindum með karlmannlegum áhrifum á tískufatnað þess tíma. Til dæmis herðapúðana sem voru tengdir valdi og framakonum á uppleið. Dægurstjörnur Madonna og leikkonan Jane Fonda höfðu einnig gífurleg áhrif rétt eins og dömurnar við frönsku hirðina sem fögnuðu frelsinu frá Versölum með léttari og litaglaðari fatnaði. Við erum öll undir áhrifum samtíma okkar.

 

Heimildir:

Pischel, Gina og Þorstein Thorarensen. Listasaga Fjölva. Reykjavík 1975.

 


 

 There are no comments

Add yours