júlí 15 275hg

Baráttan um brjóstagjöf

Á Íslandi er brjóstagjöf algeng. Allt að 98% mæðra hefja brjóstagjöf við fæðingu, en hvergi á Norðurlöndunum er hlutfallið eins hátt. Um 85% íslenskra barna fá enn brjóstamjólk við 6 mánaða aldur og hátt í 30% við 1 árs aldur. Ekki eru til tölur um brjóstagjöf eftir fyrsta árið en ljóst er að nokkuð stór hópur íslenskra barna er á brjósti talsvert fram yfir það. Alþjóða heilbrigðisstofnun mælir með brjóstagjöf í minnst 2 ár.

Viðhorf til sýnilegrar brjóstagjafar eru almennt jákvæð hérlendis og fæstir Íslendingar kippa sér upp við brjóstagjöf á almannafæri. Slíkt er hreint ekki algilt á Vesturlöndum og víða er þess krafist að móðir hylji sig á meðan barni er gefið. Sum lönd hafa jafnvel þurft að festa í lög rétt kvenna til að gefa óáreittar brjóst á almannafæri.

Mögulega haldast þessi sérstöku viðhorf til brjóstagjafar á Íslandi í hendur við almenna stöðu íslenskra kvenna, en réttindi og möguleikar kvenna eru hér með besta móti á heimsvísu. Á Vesturlöndum eru brjóst kvenna iðulega tengd við kynlíf og klámvæðingu, en ekki sitt náttúrulegasta hlutverk – að næra barn. Þetta veldur því að brjóstagjöf hefur í sumum samfélögum orðið að einhverju sóðalegu og slæmu. Samfélag sem styður við brjóstagjöf mæðra og viðurkennir hana sem eðlilegt fyrirbæri, hlýtur að styðja við og viðurkenna konur sem slíkar en sjá þær ekki fyrst og fremst sem kynlífsviðföng.

En líkt og staða íslenskra kvenna er langt frá því að vera fullkomin, eru viðhorf Íslendinga til brjóstagjafar heldur ekki eingöngu jákvæð. Áhugafólk um brjóstagjöf finnur fyrir viðhorfsbreytingu hjá almenningi varðandi sýnileika brjóstagjafar, og þeim íslensku mæðrum fjölgar sem upplifa áreiti við að gefa barni á almannafæri. Enn fremur eru mæður gagnrýndar fyrir lengd brjóstagjafar fari hún út fyrir hina mjög svo almennu 6-9 mánuði, og skiptir þá litlu hvort barnið er á brjósti skemur eða lengur.

Vitað er að margar þeirra mæðra sem kjósa brjóstagjöf í einhver ár fara í felur með hana vegna gagnrýni. Engin eða stutt brjóstagjöf er að sama skapi fordæmd. Þetta eru tvær hliðar á sama peningi og snýst í báðum tilvikum um valdboð yfir líkama og lífi kvenna. Engin ein skoðun á brjóstagjöf er ríkjandi á Íslandi, heldur virðist einfaldlega vanta upp á sjálfsagða virðingu við persónulegt val kvenna.

Því liggur beinast við að nálgast brjóstagjöf út frá kenningum um kvenfrelsi. Að konur hafi forræði yfir eigin líkama er mikilvægt réttindamál. Hver kona á að eiga sinn líkama í friði fyrir fordómum, gagnrýni og afskiptasemi annarra. Hvað varðar brjóstagjöf sem annað.

Eftirfarandi ljósmyndir sýna mæður gefa börnum sínum brjóst við ýmsar aðstæður sem hafa táknræna merkingu fyrir alhliða baráttu og stöðu kvenna, þó efnisþættirnir sem myndirnar sýna séu langt í frá tæmandi lýsing á lífi kvenna. Börnin eru allt frá 4 daga til 4 ára gömul til að sýna breiddina í aldri brjóstabarna og ein myndin sýnir pelagjöf.

Smellið á hverja mynd til að skoða hana betur og lesa fróðleiksmola um stöðu og réttindabaráttu íslenskra kvenna á ýmsum sviðum.

 

Mæður

Lesbíur

Konur af erlendum uppruna

Atvinnuþátttaka kvenna

Menntun kvenna

Íþróttakonur

Konur innan kirkjunnar

Listakonur

Brjóstagjafasería20aa

Konur í fjölmiðlum

Stjórnmálaþátttaka kvenna

Forsetaembættið og einstæðar mæður

Pelagjöf

 There is 1 comment

Add yours
  1. Alfa Markan

    Takk fyrir! Mjög ánægjulegur lestur og myndirnar gullfallegar.
    Til hamingju með þetta frábæra verkefni.


Post a new comment