gullsmidur_uti-1

Atvinnustarfsemi í bílskúrum

Litlir kassar

Við mörg hús borgarinnar standa bílskúrar. Þeir vekja ekki sérstaka athygli manns svona yfirleitt. Þeir eru þetta aukaatriði sem oft vill fara framhjá manni. Þeir virðast líka allir ósköp áþekkir. Eftirfarandi laglína kemur ósjálfrátt upp í hugann: „Litlir kassar á lækjarbakka, litlir kassar úr dinga-dinga-ling. Litlir kassar, litlir kassar, litlir kassar, allir eins“.

Þegar betur er að gáð eru þeir þó langt frá því að vera eins. Sumir eru úr steypu, aðrir úr timbri, sumir áfastir húsunum, aðrir steinsnar frá. Sumir eru notaðir eins og nafnið bendir til – undir bíla. Aðrir eru notaðir mestmegnis undir drasl. Enn aðrir eru notaðir sem atvinnuhúsnæði.

Bílskúr sem vinnustaður

Þeir bílskúrar sem notaðir eru í atvinnuskyni hafa ætíð vakið forvitni mína. Ég fyllist alltaf óstjórnlegri löngun til að kíkja inn. Það er reyndar ekki alltaf augljóst hvaða bílskúrar hýsa atvinnustarfsemi. Utan á sumum þeirra eru einhvers konar skilti á meðan aðrir eru með öllu ómerktir. Hvernig getur atvinnustarfsemi gengið upp sem ekki er auglýst skilmerkilega?

Ég lagðist í rannsóknarvinnu til að hafa upp á nokkrum áhugaverðum bílskúrum. Sú rannsóknarvinna fólst hreinlega í að spyrja vini og vandamenn hvort þeir vissu um einhverja slíka. Það kom fljótt í ljós að einmitt þannig gengur þetta að mestu leyti fyrir sig. Vitneskjan um viðkomandi atvinnustarfsemi berst manna á milli á sama hátt og munnmælasögurnar forðum. Næstum allir höfðu frá einhverjum bílskúr að segja. „Ertu búin að fara í …..æ þarna skúrinn sem er nálægt …….. þú veist….“

Kíkt í skúrinn

Ég ákvað að kíkja í heimsókn í nokkra af þeim bílskúrum sem ég fékk vitneskju um. Þannig gat ég látið undan löngun minni til að sjá hvernig er umhorfs þar innandyra. Það kom skemmtilega á óvart hve fjölbreytilega starfsemi ég kom niður á. Alls staðar var mér tekið alveg einstaklega vel. Viðtökurnar voru eins og maður átti að venjast þegar ég var að alast upp í Bústaðahverfinu á sjöunda og áttunda áratugnum. Þegar Reykjavík hafði fremur yfirbragð stórs bæjar en borgar og orð manna og handaband var tekið gilt sem trygging fyrir ótrúlegustu hlutum.

Stemmingin í þessum bílskúrum er líkt og þegar maður hittir fyrir kaupmanninn á horninu. Einhvern veginn er skarkali borgarinnar og stórmarkaðanna svo víðsfjarri. Allt í einu er sem tíminn sé það sem maður á nóg af og spjallið verður með lengra móti. Að loknu upphaflegu erindi er veðrið og pólitíkin og ýmislegt annað krufið til mergjar.

Talið berst líka að því hvers vegna starfsemin fer fram í bílskúr en ekki einhverju sérstöku atvinnuhúsnæði út í bæ. Svörin eru á ýmsa lund. Sumir sögðu að veltan á starfseminni væri það lítil að hún myndi engan veginn standa undir leigu á slíku húsnæði. Aðrir nefndu að þetta væri líka svo þægilegt. Það væri stutt að fara í vinnuna með þessu móti eða að þetta væri aukavinna sem þeir sinntu ákveðinn hluta vikunnar. Af þessu má draga þá ályktun að atvinnuflóra borgarinnar væri öllu fátækari ef ekki væri fyrir hina ýmsu bílskúra borgarinnar.

Erindi sem erfiði

Ég get varla verið svo skrýtin að vera sú eina sem leikur forvitni á að kynnast þessari hlið borgarinnar. Ég tók því myndir af bílskúrunum bæði að utan og innan til að leyfa fleirum að njóta. Ég ætla samt ekki að gera ykkur leikinn auðveldari en mér – ég ætla ekki að gefa upp hvar þeir eru. Þið verðið sjálf að spyrjast fyrir ef þið sjáið fram á að eiga erindi við þetta dásamlega fólk.

 

Þeir Íslendingar sem eiga sumarhús hér á landi eða erlendis gefa bústöðum sínum gjarnan nafn. Því deila þeir með öðrum með því að hengja upp skilti. Flest þekkjum við viðarskiltin með útskornu stöfunum sem virðast standast einkar vel tímans tönn og íslenskt veðurfar. Það vita sjálfsagt fæstir að mörg þeirra urðu til í þessum bílskúr – hjá honum Tóta skilti.

Skiltagerðarmaður

Skiltagerðarmaður

 

Rétt eins og faðir hans á undan honum – þá sér hann Einar um að motturnar séu vel faldaðar og flottar. Allt á hreinu á þessum bæ – ég meina bílskúr.

Gólfteppaföldun

Gólfteppaföldun

 

Þeir fiska sem …… nota réttu flugurnar! Það er úr nógu að velja í þessum bílskúr hjá honum Viðari.

fluguhnýtingar

Fluguhnýtingar

 

Það ríkir einhver stóísk ró yfir gítarviðgerðamanninum Gunnari Erni og hundinum hans Cesari. Það er líkt og allir gömlu gítararnir séu því fegnir að fá tímabundna hvíld hjá þeim félögum. Þeir gítarar sem eru í smíðum virðast aftur eins og spennt ungviði sem bíður framtíðarinnar með tilhlökkun.

Gítarviðgerðamaður

Gítarviðgerðamaður

 

Það er spennandi að líta við í þessum bílskúr enda stendur Spennandi á hurðinni! Bílskúrinn er svo fullur af fallegum fötum og alls kyns munum að maður vill helst setjast þar að. 

Fata- og gjafavöruverslun

Fata- og gjafavöruverslun

 

Hver segir að bílaverkstæði þurfi að vera skítug? Hjá þessum feðgum er alla vega allt hreint, fínt og skipulagt! Hvort sem það eru verkfæri, uppteknar vélar, hólf eða gólf. 

Bílaréttingar

Bílaréttingar

 

Ekki er allt gull sem glóir – en það lýsir af honum Jóhannesi þar sem hann smíðar undurfagra silfurhringi af kappi. 

Gullsmiður

Gullsmiður

 

 

 There are no comments

Add yours