IMG_7809 2

Blómstrandi Brugghús

Bjórmenning á Íslandi hefur breyst gífurlega síðustu ár. Þar er af ýmsu að taka og má nefna fleiri tegundir, meiri þekkingu, fjölbreyttari öldurhús og mikinn áhuga neytenda en helst ber að nefna fjölbreytni og miklar nýjungar sem litið hafa dagsins ljós. Eflaust er hægt að tengja þessa fjölbreytni við stofnun míkróbrugghúsa eða örbrugghúsa víða um land. Þessi litlu brugghús hafa átt stóran þátt í að auka flóru bjórtegunda sem í boði eru og bætt ýmsum nýjungum við frekar einsleitan markað hér á landi. Saga míkróbrugghúsa er ekki löng og þrátt fyrir það að starfsemin sé í litlum mæli er framlagið til bjórmenningar gífurlegt.

Fyrstu míkróbrugghúsin litu dagsins ljós á áttunda áratug síðustu aldar og eiga rætur að rekja til Bretlands. Þau míkróbrugghús sem hægt er að finna á Íslandi voru stofnuð á árunum 2006 til 2012 en Bruggsmiðja Kalda var stofnuð 2006. Annars vegar er talað um þessi míkróbrugghús sem brugghús sem framleiða bjór undir ákveðnu magni, þá er miðað við að magn framleiðslu sé undir 1.800.000 lítrum af bjór á ári, þetta er auðvitað mikið miðað við litla Ísland og eru míkróbrugghúsin langt undir þessari framleiðslu. Ölvisholt framleiðir til að mynda 330.000 lítra á ári og framleiðsla Kalda er í 500.000 lítrum á ári. Hins vegar er um að ræða huglæga lýsingu á þeim brugghúsum sem sérhæfa sig í öðruvísi viðhorfi og nálgun á bjórgerð en stóru brugghúsin. Þar má nefna ýmsar nýjungar, fjölbreytileika og tegundir sem ekki hafa verið í boði áður. Þessi tegund framleiðslu hefur ekki þekkst í gegnum tíðina enda ekki svo langt síðan bjórbanninu var aflétt ef við skoðum málin í stóru samhengi. Því er það ekki fyrr en nýverið sem þessi míkróbrugghús hafa skotið upp kollinum á Íslandi. Eftir að fyrstu míkróbrugghúsin litu dagsins ljós hefur orðið mikið stökk á þessu sviði og fer hópurinn vaxandi. Þá er bæði átt við brugghúsin sjálf en hvert gæðabúið skýtur upp kollinum á fætur öðru og þann fjölda tegunda sem hvert og eitt kemur með á markaðinn.

Það virðist ekki vera neitt svæði sem hefur vinninginn hvað varðar staðsetningu brugghúsanna en þau hafa skotið upp kollinum víða. Einstök Ölgerð hefur aðsetur á Akureyri, Bruggsmiðja Kalda er staðsett á Árskógssandi, Gæðingur Öl er bruggaður á bænum Útvík í Skagafirði, Borg Brugghús er að sjálfsögðu í höfuðborginni, Ölvisholt Brugghús er staðsett í Ölvisholti í Flóahreppi og Brugghús Steðja er með sína starfsemi í Borgarfirði. Öll eiga þessi brugghús það sameiginlega markmið að framleiða gæðabjór til menningar- og samfélagsbetrunar. Auk þess sem brugghúsin státa af metnaðarfullri framleiðslu hafa sum þeirra tekið það á sínar hendur að koma bjór á framfæri og þar má nefna Kaldabar og Míkróbar auk annarra staða sem bjóða uppá fjölbreytt úrval íslensks bjórs þar sem míkróbjór fær að njóta sín.

Bjór míkróbrugghúsanna er framleiddur í mun minni mæli en hjá stærri brugghúsum. Einnig kemur fyrir að þau framleiði sérstakar tegundir bjórs. Þær eiga það flestar sameiginlegt að vekja mikla athygli og seljast upp á örskotstundu. Þau dæmi sem helst ber að nefna eru hvalabjórinn frá Steðja, Úlfur Úlfur frá Borg og árstíðabundinn bjór brugghúsanna. Hráefnin sem notuð eru við sköpun framandi gæðabjórs geta verið afar sérstök og þar má einmitt nefna hvalamjöl, jarðaber, þara, blóðberg, kakó, kaffi og ýmislegt í þeim dúr. Tegundirnar sem eru í boði þykja því oftar en ekki stórglæsilegar. Auk sérstakra tegunda bjórs eru tegundir sem ekki eru algengar hér á landi og má þar nefna stout, pale ale og hveitibjóra. Með tilstilli míkróbrugghúsanna hafa ófáar tegundir litið dagsins ljós en Borg var nýverið að framleiða tegund númer 24. Einhverjar tegundanna hafa ekki verið framleiddar hér á landi fyrr en eftir komu míkróbrugghúsanna. Þar má nefna India Pale Ale en Borg framleiddi fyrsta slíka bjór landsins.

Auk þess sem almennar bjórtegundir aukast á hverju ári með þessum míkróbrugghúsum þá framleiða þau öll árstíðabundnar tegundir. Til að mynda fyrir jól, þorra og páska og eykur þessi framleiðsla fjölbreytileika markaðarins. Jólin 2013 var valið ansi gott en fjórtán íslenskar tegundir jólabjórs voru þá í boði, þar af átta frá míkróbrugghúsunum. Framtíðin er því björt hvað varðar möguleika þeirra bjórþyrstu til þess að væta kverkarnar á eins fjölbreyttum veigum og kostur er á.There are no comments

Add yours