IMG_7830 2

Kokteilsósa: Sósa allra landsmanna

Hver og einn einasti einstaklingur sem telur sig vera sannan Íslending þekkir og elskar hina himnesku kokteilsósu. Hvort sem það sé í samfloti með frönskum kartöflum, eða öllu heldur íslenskum kartöflum framreiddum að frönskum sið, einni með öllu eða nokkurn veginn hverju sem er. Kokteilsósa er ástríða, menningarleg frá örófi alda. Jæja, reyndar er uppruni kokteilsósunnar ekki alveg svo forn. Þó er ekki vafi á því að upplifun kókteilsósufólks er á sama veg og kemur hér fram. Raunveruleg saga kokteilsósunnar er ósköp einföld. Hún er nefnd eftir kokteilum eða öllu heldur sósunum sem fylgdu rækjukokteilum og því meðlæti sem var á boðstólum í kokteilboðum fortíðar. Hvernig hún varð meðlæti okkar með fröllum og pulsum er hins vegar annað mál. Íslendingar hafa tekið miklu ástfóstri við kokteilsósuna. Hún hefur þróast í gegnum tíðina og miðað við vinsældir hennar hérlendis smanborið við önnur lönd virðumst við vera orðin algjörir kokteilsósusérfræðingar. Samsetning sósunnar er mismunandi eftir löndum og hefur sósan til að mynda ekki haft erindi sem erfiði á mörkuðum Bandaríkjanna. Þar hefur nefnilega orðið einhver misskilningur hjá sósufólki og þeim borist röng uppskrift og fara því á mis við bestu sósu heimsins. 

Kokteilsósan hefur meira að segja gerst svo fræg að Stuðmenn, hljómsveit allra landsmanna, hafa samið um hana lag. Kokteilsósan spilaði í það minnsta stóra rullu í laginu Franskar (sósa og salat?) þar sem Stuðmenn sungu um „pinkstöffið“ eins og þeir kalla það. Þeir sem ekki eru á sömu blaðsíðu hvað varðar óumdeilda yfirburði kokteilsósunnar þurfa ekki að örvænta því einungis er um tímaspursmál að ræða. Þeir sem ekki elska kokteilsósu hafa aldrei smakkað kokteilsósu eða hafa einungis smakkað hana á röngum tímapunkti, við rangar aðstæður eða með rangt hugarfar að leiðarljósi. Eins og bersýnilega sést hefur kokteilsósan farið sigurför um heim matargerðar og sigrað fiskinn, kjúklinginn, pulsuna og hamborgarann. Einn vettvangur er þó eftir en það er flatbakan góða. Af einhverjum ótrúlegum ástæðum hefur hefur kokteilsósuna vantað á flatbökumatseðla heimsins. Þó eru allar líkur á því að kokteilsósan muni teygja anga sína í síðasta virkið. Því þyrftu íslenskir flatbökuframleiðendur að taka sig til og skipta út flatbökusósunni fyrir kokteilsósu og hætta að lifa í lygi. Fáum kokteilsósuna á allt, áfram kokteilsósa, hún lengi lifi!There are no comments

Add yours