4726887669

Geta konur haft áhrif á fæðingarupplifun sína?

Ég var ekki nema átján ára þegar ég eignaðist frumburðinn, litla fullkomna stelpuskottu, á Landspítalanum. Kannski hafði aldur minn og reynsluleysi áhrif á upplifun mína en mér fannst ég ekki hafa atkvæðisrétt á við starfsfólk spítalans þegar kom að mínum eigin líkama eða ákvarðanatöku í fæðingunni. Mér fannst ég niðurlægð og fór heim með slæmar minningar og brotna sjálfsmynd. Mér tókst þó að kyngja kekkinum í hálsinum þar til ég gekk með son minn sjö árum síðar. Eftir fyrstu mæðraskoðun fann ég aftur hve vald heilbrigðiskerfisins var gríðarlegt og hvernig það traðkaði á minni eigin sannfæringu og dómgreind. Ég var Davíð að berjast við heilbrigðiskerfið Golíat. Ég fór því að velta fyrir mér hvort fæðandi konur væru einfaldlega peð í hinum sjúkdómsvædda heimi eða hvort þær gætu á einhvern hátt eflt vald sitt og upplifað sig sem gerendur í sinni eigin fæðingu.

Það getur haft gríðarleg áhrif á líf kvenna og líðan hvernig þær upplifa fæðingar. Jákvæð fæðingarupplifun getur orðið til þess að efla sjálfsmynd kvenna og styrkja tengsl móður og barns sem og tengsl móður og maka eða annarra fjölskyldumeðlima. Að sama skapi getur neikvæð upplifun haft slæm áhrif á sömu þætti.

Þegar konur fæða á spítala þurfa þær að lúta ákveðnu regluverki stofnunarinnar, þær eru á heimavelli þeirra sem þekkinguna hafa og þar með valdið. Oft, en sem betur fer ekki alltaf, er það svo að konur upplifa sig vanmáttugar í fæðingu, þær upplifa að heilbrigðisstarfsfólkið sé við stjórnvölinn og ráði ferðinni en ekki þær.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að ein sterkasta þörf fæðandi kvenna er að vera sjálfar við stjórnvölinn. Þær þarfnast þess að hlustað sé á þær, að tekið sé mark á skoðunum þeirra, að þær séu vel upplýstar, fái útskýringar á því sem þeim finnst þarfnast útskýringa og svo framvegis.

Í von um að efla vald sitt kjósa sumar konur heimafæðingar þar sem þær eru á sínum heimavelli. En það eru þó ekki allar konur sem eiga kost á því að fæða heima, t.d. vegna áhættumeðgöngu eða vandkvæða í fyrri fæðingum. Sumar konur kjósa líka einfaldlega að fæða á sjúkrahúsi. En hvað geta konur sem vilja eða verða að fæða á spítölum gert til að efla vald sitt?

Þær geta lesið sér til um það sem er í vændum. Hafa ber þó í huga að margar bækur sem fjalla um meðgöngu og fæðingu eru skrifaðar af læknum og ljósmæðrum svo oft innihalda þær mest megnis læknisfræðilegar og líkamlegar upplýsingar. Það eru þó líka til bækur um andlegu hliðina, upplifanir kvenna og þarfir þeirra sem eru t.d. skrifaðar af mannfræðingum. Eða bækur eins og Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð þar sem íslenskar konur skrifa sjálfar sínar eigin fæðingarsögur.

Einnig er hægt að fá viðtal hjá ljósmóður og ræða málin. Öllum konum sem fætt hafa börn býðst að fá viðtal hjá þjónustu sem nefnist Ljáðu mér eyra. En þar fer ljósmóðir með konum yfir fyrri fæðingar og þeim gefst færi á að spyrja spurninga, fá útskýringar og ráðgjöf eftir því sem við á. Konur geta með þessu móti tekist á við fyrri reynslu og undirbúið sig fyrir næstu fæðingu.

Margar konur hafa líka brugðið á það ráð að skrifa óskalista og taka með sér á fæðingardeildina. Það er gott að vera búin að huga að því fyrir fæðingu hvað maður vill eða vill ekki, þar sem oft gengur mikið á í fæðingunni sjálfri og konur eru ekki endilega í stakk búnar til að tjá skoðanir sínar og óskir í miðjum hríðum.

Það eru því ýmsar leiðir færar en það sem er kannski mikilvægast í þessu öllu er að konur séu vel undirbúnar fyrir fæðingu og geri sér grein fyrir því valdamisræmi sem að öllu jöfnu ríkir milli fæðandi kvenna og fagfólks inni á spítölum. Það getur verið vont að komast að því í miðri fæðingu að þú ert að berjast við Golíat, án nokkurra vopna. Fæðandi konur eiga að vera óhræddar við að spyrja og láta skoðanir sínar í ljós. Þær eiga að biðja um útskýringar ef það er eitthvað sem þeim þykir þarfnast útskýringa. Skýringin á bak við ákvörðun ljósmóður eða læknis getur verið mjög góð og einföld enda eru þau sérfræðingar í fæðingum. Ef konur fá að vita af hverju eitthvað er gert eða ekki gert eru mun meiri líkur á því að þær átti sig á aðstæðum og sætti sig við aðgerðirnar eða verði jafnvel fylgjandi þeim. Í kjölfarið upplifa þær sig frekar við stjórnvölinn og fæðingarupplifun þeirra verður jákvæðari.There are no comments

Add yours