heimafæðing

Heimafæðing

Það færist í aukana að íslenskar konur kjósi að fæða börnin sín heima. Þær sjá ýmsa kosti við að vera í sínu umhverfi, hafa stjórn á aðstæðum og val á viðstöddum, og upplifa persónulega þjónustu og náin tengsl við ljósmóðurina sína. Faðir getur treyst á þátttöku í komu barnsins og engin hætta er á að fjölskyldan verði sundruð eftir fæðinguna. Engar líkur eru á vandræðum í kjölfar ónauðsynlegra inngripa þar sem slík inngrip eru ekki til staðar í heimahúsi, engin hossandi bílferð í miðjum hríðum og barnið hefur ekki viðkomu í ókunnugri sýklaflóru áður en það hreiðrar um sig í faðmi fjölskyldunnar á verðandi heimili sínu.

Heimafæðingar vekja iðulega heitar umræður og ríkir margs konar misskilningur um fyrirbærið, þá ekki síst hvað varðar öryggið. Enda kannski svolítið fallið í gleymsku á Vesturlöndum að kvenlíkaminn er jú hannaður til að fæða börn.

Hvað með öryggið?

Fyrst af öllu þarf að muna að heimafæðing er ekki valkostur nema allt sé í toppstandi. Konan sé hraust og meðgangan hafi gengið vel, barnið fæðist á réttum tíma og engin fyrirsjáanleg vandræði í fæðingunni. En áhættumeðgöngu skal hins vegar  alltaf ljúka með fæðingu á sjúkrahúsi.

Gangi fæðingin sjálf ekki að óskum þegar á reynir færast leikar auðvitað yfir á spítala í miðjum klíðum. Það er aldeilis enginn slagur á milli heimafæðinga og spítalafæðinga. Allar mæður sem hefja fæðingu heima vita að það er alltaf möguleiki á að fæðingin verði þannig að spítali sé heppilegri staður fyrir lokahnykkinn. Þá færa þær sig glaðar þangað og spítalinn tekur þeim opnum örmum, á Íslandi er gott samstarf á milli heimaljósmæðra og fæðingardeilda. Hátt í 30% íslenskra heimafæðinga enda á spítala. Langoftast vegna óska konunnar um deyfingu, þar sem fæðingin er orðin langdregin og erfið. Þetta hlutfall er í raun gleðiefni því það sýnir að börn fæðast ekki í heimahúsi nema við bestu aðstæður. Heimaljósmæður er þjálfaðar í að greina hættumerki snemma og taka enga áhættu.

Flestar konur sem kjósa heimafæðingu líta reyndar svo á að heimilið veiti extra öryggi, þar sem sama ljósmóðirin sér um fæðinguna frá upphafi til enda. Hún hefur kynnst móðurinni fyrir fæðingu og fylgst með meðgöngunni. Engin hætta er á vaktaskiptum þar sem ný ókunnug manneskja gengur skyndilega inn í mitt ferlið, eða að ljósmóðirin sé hlaupandi á milli margra fæðandi kvenna. Heimaljósmóðir þekkir aðstæðurnar út og inn og sinnir engu öðru en þessu eina barni sem er að koma í heiminn.There are no comments

Add yours