peningar

Hversdagsleiki peninga

Oft eru það hversdagslegu hlutirnir sem við gleymum. Við gleymum uppruna þeirra og þeim áhrifum sem þeir hafa á okkur dagsdaglega. Einn hversdagslegur hlutur sem við hugsum oft um, en spáum kannski ekki mikið í hvað við hugsum oft um og notum nánast daglega, eru peningar. Peningar eru ótrúlega merkilegt fyrirbæri. Samt vita fáir hvaðan peningar koma og hversu mikil áhrif þeir hafa í raun og veru á líf okkar.

Flestir hugsa um peninga. Annað hvort þeir sem sitja í fílabeinsturnum sínum og telja þá í massavís eða þeir sem teljast almennir borgarar. Þeir sem þurfa að hugsa um að greiða reikninga á réttum tíma og neyðast oft til þess að hætta við að kaupa uppáhalds skóna vegna þess að peningana skortir. Við skulum bara öll viðurkenna það að peningar skipta máli.

Sumir segja að peningar fái heiminn til að snúast. Heimurinn myndi samt ekki hætta að snúast þó engir væru peningar. Við þurfum samt peninga til að geta lifað í nútímasamfélagi. Ef peningar myndu hverfa þá tækju bara við vöruskipti. Ég myndi þá keyra á næsta sveitabæ og hnupla nokkrum kindum svo ég gæti haft eitthvað til að skipta með. Sauðfé, kýr og önnur húsdýr voru nefnilega notuð hér á öldum áður sem gjaldmiðill. Löngu áður en fyrirbærið peningar komu til sögunnar. Mætti jafnvel segja að peningar séu í raun bara ávísun á ákveðin verðmæti, hvort sem það er hús eða bíll.

Til þess að komast að kjarna málsins í þessari grein þá snýst hún um að vekja fólk til umhugsunar um peninga. Þá er ég ekki að tala um sparnað eða fjárfestingar heldur hugmyndina um peninga og hversu miklu máli þeir skipta okkur. Um leið vil ég vekja athygli á misskiptingu peninga. Stundum viljum við halda að við þurfum að vinna fyrir peningum, sem er í flestum tilfellum þannig. En peningar eru huglægt fyrirbæri og samkomulag. Gætum við hugsanlega öll lifað betra lífi ef peningum væri stjórnað á annan hátt? Gætum við lifað í heimi þar sem auður er metinn á annan hátt en með peningum? Væri hægt að endurhugsa kerfið sem peningar byggja á? Þetta eru allt vangaveltur en tilgangurinn er ekki að fá svör heldur að vekja athygli á þessu hversdagslega fyrirbæri. Breytingar og byltingar eiga sér nefnilega oftast stað þegar við hættum að líta á einhvern hlut sem sjálfsagðan eða óhagganlegan. Kannski er kominn tími til að hugsa öðruvísi um peninga og lifa þá lífinu öðruvísi. Því hvað myndir þú vilja gera við líf þitt ef peningar skiptu engu máli?There are no comments

Add yours