hverfisbuðin_1

Kaupmaðurinn á horninu

Langholtskjör

Langholtskjör. Ungur íbúi hverfisins stendur vaktina.

Fyrir um þrjátíu til fjörtíu árum síðan var kaupmanninn á horninu að finna í næstum öllum hverfum borgarinnar. Í dag er þetta mikið breytt. Öll þekkjum við verslunarkeðjur borgarinnar og öll þeirra útibú. Flestir fara nú akandi þangað og kaupa helst inn fyrir vikuna. Þessi breytta kauphegðun hefur gert það að verkum að hinn dæmigerði kaupmaður á horninu er orðinn sjaldséður. Hann getur ekki keppt við stórmarkaði í verði né vöruúrvali. Margir sakna þó þeirra daga þegar ekki þurfti nema nokkur skref að fara til að nálgast eitt og annað sem vantaði. Í leiðinni var líka hægt að spjalla við kaupmanninn eða nágranna í sömu erindagjörðum.

Langholtskjör

Langholtskjör

Langholtskjör

Íbúar Vogahverfisins í Reykjavík eru svo heppnir að eiga ennþá hverfisverslun. Það er Langholtskjör á horni Langholtsvegar og Snekkjuvogar. Börnin í hverfinu kalla hana reyndar alltaf Ólabúð. Óli er búinn að reka búðina í 17 ár. Hann hefur því átt langa og um leið farsæla samleið með íbúum hverfisins. Börn sem náðu ekki upp fyrir búðarborðið í fyrstu, hafa sum hver endað með að standa vaktina hinum megin borðsins. Óli hefur gert þeim kleift að vinna þar meðfram skólanum.

Langholtskj._inni_3

Hvað segja íbúarnir?

Hvaða þýðingu hefur það fyrir íbúa hverfisins að hafa Langholtskjör í göngufæri við sig?

SigurðurSveinnSigurður Sveinn Jónsson: „Ég flutti í hverfið 1992 og hef nánast frá fyrsta degi sótt eitt og annað í Langholtskjör. Ég er búinn að vera í reikning þar í mörg ár en það er áreiðanlega ekki algengt. Þegar upp kemur sú staða að eitthvað vantar í miðjum matarundirbúningi er frábært að geta beðið strákana sína um að stökkva út í Ólabúð og kvitta fyrir vörunum.

Fyrir allmörgum árum var erfitt að fá mjólk vegna verkfalls. Óli vissi hverjir í hverfinu voru með ung börn og laumaði einni og einni fernu á valda viðskiptavini. Það lýsir Óla vel.

Þegar við hjónin vorum nýkomin heim af fæðingardeildinni með yngsta son okkar þurfti ég að skreppa út í búð til Óla. Hann spyr hvort barnið sé fætt og ég segi honum stoltur frá þriðja syninum. „Jahá“ segir þá Óli og lítur í kringum sig. Svo þrífur hann einn af blómvöndunum sem hann var að selja og réttir mér. „Til hamingju, færðu konunni þetta frá mér“. Þegar heim var komið tók konan glöð við blómunum og segir „nei sko, bara blóm og allt, æ hvað þú ert sætur“. Það var freistandi að láta hana halda að ég væri svona almennilegur. En maður skreytir sig ekki með stolnum fjöðrum svo ég varð að viðurkenna kindarlegur á svip að þetta væri nú sending frá Óla með bestu hamingjuóskum!

Árni SvanurKristín ÞórunnÁrni Svanur og Kristín Þórunn: Við búum eiginlega beint á móti Ólabúð – sem er aldrei kölluð neitt annað á okkar heimili. Það hefur oft komið sér vel að Óli stendur vaktina fyrir okkur. Ekki amalegt að geta beðið börnin að hlaupa út og kaupa pulsubrauð eða mjólkurlítra, þegar þessa hluti vantar á ögurstundu. Það er líka orðinn fastur liður að kaupa laugardagsnammið hjá Óla. Það eru mjög stoltir sælgætisgrísir sem fá að fara með hundraðkall í lófanum yfir Langholtsveginn og velja sér bland í poka – alveg sjálf! Lengi lifi Ólabúð!

Stígur 9 ára

 

Stígur, 9 ára: Mér finnst Ólabúð mjög góð því þar fæst mjög gott nammi og ég vil ekki að hún fari á hausinn.

Hverfishátíðin

Síðastliðin sumur hefur Óli ásamt fleirum staðið fyrir hverfishátíð. Góðir og gegnir viðskiptavinir fá þá boð um að mæta í grill framan við búðina. Börnin eru alltaf boðin sérstaklega velkomin. Af sérstöku tilefni eitt sumarið, leigði Óli meira að segja hoppukastala, börnunum til mikillar gleði. Hann var svo stór að fella þurfti eitt tré í garðinum!

Veitingarnar eru ekki af verri endanum – pylsur, hamborgarar, grillaður kjúklingur og heilu lambalærin. Meðlætið hvert öðru betra. Hinir fjölmörgu tónlistarsnillingar sem búa í hverfinu láta sig aldrei vanta þennan dag. Tónlist af öllu tagi hljómar því jafnan langt fram á kvöld. Þessi hátíð er sannarlega einn af hápunktum sumarsins.

Mikilvægi kaupmannsins

Af ummælum íbúa hverfisins að dæma, skiptir kaupmaðurinn á horninu þá miklu máli. Verslunarstjórar stóru verslananna kynnast ekki viðskiptavinum sínum. Þeir hafa ekki tíma til að ræða við þá um lífsins gagn og nauðsynjar. Viðskiptavinirnir eru einfaldlega of margir. Persónuleg tengsl ná ekki að myndast. Auðvitað eru ekki allir kaupmenn á horninu eins og Óli. Gera má því þó skóna að flestir þeirra gegni mikilvægu hlutverki fyrir nærsamfélagið.

Nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík til ársins 2030 liggur nú fyrir. Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs lét eftirfarandi orð falla af því tilefni: „… Við viljum hafa matjurtagarða og kaupmanninn á horninu í öllum hverfum“. Tími kaupmannsins á horninu er því vonandi kominn – aftur.There are no comments

Add yours