calm ocean

Núvitund

Hugur okkar er öflugt tæki, eflaust öflugara en margur heldur. Hugurinn stoppar aldrei og við getum ekki alltaf ráðið hvaða hugsanir birtast í höfði okkar, hann fer á staði án þess að við biðjum um það. Við upplifum öll allskonar hugsanir sem við tökum ekki alltaf alvarlega. Við höfum þessa síu sem kemur í veg fyrir að við framkvæmum allar hugsanir. Eflaust hafa einhverjir upplifað skapraun þegar það er svínað á þá í umferðinni og langar helst til að elta aðilann uppi og kenna honum lexíu. Þegar hugsunin er tekin aðeins lengra myndu fæstir vilja stofna sjálfum sér og öðrum í hættu með því að framkvæma þessa hugsun. Hugsanir koma oft jafn hratt og þær fara, sumar jákvæðar og aðrar neikvæðar. Þegar við sogumst inn í erfiðar og neikvæðar hugsanir, trúum þeim alltaf og skilgreinum nánast hverja einustu hugsun þá getur róðurinn orðið þungur.

Núvitund (e. Mindfulness) er ein þekktasta leiðin í dag til þess að takast á við streitu og auka hamingju og vellíðan í daglegu lífi, efla einbeitingu og jákvætt hugarfar. Núvitund fjallar meðal annars um að finna rými í huganum. Að geta skapað fjarlægð frá erfiðum hugsunum og leyft þeim að fljóta hjá án þess að leyfa þeim að skilgreina sig. Líkt og munurinn á því að standa inn í miðjum stormi og sitja inni við og hlusta á veðurbarningin fyrir utan. Að beina athygli sinni að líðandi stundu og vera til staðar í hverju augnabliki í sátt við sjálfan sig og umhverfi. Í stað þess að velta fyrir sér því sem gerðist í fortíðinni og því sem gæti gerst í framtíðinni.

Við erum nefnilega ekki endilega hugsanir okkar eða tilfinningar, þrátt fyrir að okkur líði á einhvern ákveðinn hátt á ákveðnum tíma þá erum við ekki sú tilfinning. Þrátt fyrir að hugsun komi óvænt í huga okkar, sem við kærum okkur ekki um þá er hún ekki endilega raunveruleg. Hún þarf ekki að segja til um hvort að við séum góðar eða slæmar manneskjur. Hugsanir eru órjúfanlegur hluti af okkur en það er hægt að líta á þær líkt og orðróm í huganum, þær gætu verið sannar, gætu verið að hluta til sannar eða bara fullkomlega ósannar.

Núvitund byggir á hugleiðslu og á rætur sínar í búddisma en fjöldamargar rannsóknir hafa sýnt fram á að ekkert hafi jafn víðtæk áhrif á heilbrigði okkar, bæði andlega og líkamlega eins og reglubundin hugleiðsla. Ávinningurinn af hugleiðslu nær inn á svo marga þætti lífsins. Allt frá svefni til persónulegra sambanda, stressi til sköpunargleði. Hún er leið til þess að verða meðvitaðri um líðandi stund og um leið meðvitaðri um hvaða þættir hafa góð og slæm áhrif á hugsanir okkar og líf.There are no comments

Add yours