Selfies

Sjálfsljósmynd, eða „selfie“ er mynd þar sem ljósmyndarinn er einnig viðfangsefnið.  Sjálfsmyndataka er ekki ný af nálinni, þar sem fyrsta þekkta sjálfsljósmyndin var tekin árið 1839 af Robert Cornelius, en hefur notið gríðarlega vinsælda undanfarin ár. Á samfélagsmiðlinum instagram eru fleiri en 89 milljón myndir merktar með hashtaginu #selfie og bætast  við nýjar slíkar myndir á hverjum degi!

 

Selfie

Til að byrja með tilheyrði sjálfsljósmyndin unga fólkinu en nú eru allir að taka „selfies“! Jafnvel forseti Bandaríkjanna hefur smellt af einni slíkri í góðum félagsskap. En afhverju gerum við þetta? Afhverju er sjálfsljósmyndin svona vinsæl?

Að vissu leyti er þetta eðlileg afleiðing af tækniþróun. Snjallsímar, spjaldtölvur og fartölvur hafa auk venjulegra myndavéla orðið að almannaeign og því flestir vel til þess búnir að taka sjálfsljósmyndir. En fólk er ekki bara að taka myndirnar og geyma þær í myndaalbúmum sér til yndisauka. Það deilir þeim! Aukin notkun samfélagsmiðla er því lykilatriði í uppgangi sjálfsljósmyndarinnar.

Tökum hefðbundna „selfie“ á instagram sem dæmi:

  • Oft er byrjað á að punta sig upp, klæða sig og mála(þá aðallega kvenfólk) og greiða hárið þannig að hver lokkur haldist á sínum stað.
  • Þarnæst eru prófaðir hinir og þessir svipir og sá valinn sem gerir mann mest aðlaðandi.
  • Sjónarhornið er einnig mikilvægt, enginn vill láta sjást upp í nefið á sér eða vera með óþarfa undirhöku(r).
  • Nokkrar tilraunir eru gerðar til að ná hinni fullkomnu mynd. Stundum þarf ansi margar tilraunir.
  • Síðan er skellt filter á myndina, hún merkt #selfie og ýmsu öðru sem á við og henni er deilt.

Þegar myndinni hefur verið deilt bíður viðkomandi spenntur eftir viðbrögðunum. Hvað ætli mörgum líki við myndina? Hvað ætli margir skrifi athugasemd við hana? Það er því ekki nóg að deila myndinni með tugum, hundruðum, jafnvel þúsundum manna á vefnum. Einhver þarf að sýna viðbrögð við henni. Einhver þarf að staðfesta að viðkomandi sé „í lagi“. Þannig hefur sjálfsljósmyndin, með hjálp samfélagsmiðla, gert sjálfsmynd fólks rafræna. „Like“ og „comment“ hafa komið í staðin fyrir einlæg bros og hrós.

Mín skoðun, sem er örugglega hrikalega gamaldags og lummó, er að við ættum kannski að prófa að hrósa hvoru öðru meira í raunheiminum. Mér þykir allavega mun meira vænt um það að vera hrósað í alvörunni en á netinu. Kannski er það af því að ég veit að „selfie“ segir ekki alltaf allan sannleikann og ég get ekki gengið um með einhvern djúsí filter á mér í raunveruleikanum.

Ég er samt sem áður ekki að segja að „Selfies“ séu að öllu leyti slæmar, alls ekki. Það hafa komið ýmsar skemmtilegar „selfie“ áskoranir, t.d. að vera ómáluð á „selfie“. Því er ég með aðra áskorun, sem ég hvet fólk til að taka þátt í.

Reglurnar eru afar einfaldar:

  1. Taktu eins mikið af „selfies“ og þú vilt.
  2. Ekki deila þeim með neinum.
  3. Hrósaðu einhverjum á hverjum degi, þú gætir jafnvel fengið bros eða hrós til baka.


There are no comments

Add yours