Second_Life_-_Advert

Tölvuleikir sem auglýsingamiðill

Auglýsingar fyrr og nú

Sú var tíðin að auglýsendum nægði að auglýsa í Morgunblaðinu og á RÚV til að ná til næstum allra landsmanna. Nú er öldin önnur. Miklar og hraðar breytingar hafa átt sér stað á fjölmiðlamarkaði síðustu ár. Tækninni fleygir fram og nýir miðlar líta dagsins ljós. Um leið breytist hegðunarmynstur okkar og væntingar.

Sífellt stærri hluti þjóðarinnar horfir ekki á sjónvarp né les dagblöð í hefðbundnum skilningi. Fólk sækir nú sjálft það efni sem vekur áhuga þess. Hver og einn horfir þegar honum hentar í gegnum tölvuskjá eða snjallsíma.

Auglýsendur hafa orðið að bregðast við þessari þróun. Þeir þurfa stöðugt að vera á tánum og fylgjast með hvað virkar. Fyrirtæki eru eitt af öðru að gera sér grein fyrir mikilvægi samfélagsmiðlanna í þessu sambandi. Einhverra hluta vegna hefur þó sá auglýsingamarkaður sem spáð er mestum uppgangi næstu árin, lítið verið í umræðunni hér á landi en það eru tölvuleikir.

Auglýsingar í tölvuleikjum

Veltan í tölvuleikjabransanum er nú þegar orðin tvöfalt meiri en í tónlistariðnaðinum og í kringum 60% af veltu kvikmyndaiðnaðarins. Sífellt stærri og fjölbreyttari hópur fólks spilar tölvuleiki. Meðalaldur tölvuleikjaspilara samkvæmt nýlegri rannsókn er 30 ár og kynjahlutfallið 55% karlar og 45% konur. Talsvert fleiri konur 18 ára og eldri spila tölvuleiki heldur en strákar 17 ára og yngri; 31% á móti 19%. Kemur það sjálfsagt mörgum á óvart.

Second_Life_-_Advert

Skjáskot úr leiknum Second Life

Mörg fyrirtæki og stofnanir hafa því áttað sig á því að með auglýsingum í gegnum tölvuleiki nái þau til stórs markhóps. Stórfyrirtæki á borð við Coke, McDonalds, Subway og Sony auglýsa þegar grimmt innan leikjanna.

Skjáskot úr tölvuleiknum Need for Speed: Carbon, þar sem sjá má auglýsingu á vegum Baracks Obama frá því hann var í forsetaframboði 2008.

Skjáskot úr tölvuleiknum Need for Speed: Carbon, þar sem sjá má auglýsingu á vegum Baracks Obama frá því hann var í forsetaframboði 2008.

Spáð er algjörri sprengingu á þessum auglýsingamarkaði á komandi árum. Líklegt er talið að veltan verði komin upp í 7,2 milljarða bandaríkjadollara árið 2016. Pólitísk öfl hafa líka áttað sig á mikilvægi tölvuleikja. Barack Obama auglýsti innan tölvuleiks bæði í forsetaframboði sínu árið 2008 og 2012.

Hægt er að semja við tölvuleikjaframleiðendur um að birta vörur eða beinar auglýsingar í leikjum á þeirra vegum. Einnig er hægt að útbúa sinn eigin tölvuleik. Leikurinn í heild sinni auglýsir þá viðkomandi fyrirtæki, vörur þess eða hugmyndafræði. Í mörg ár hefur bandaríski herinn til að mynda búið til og sett á markað sína eigin tölvuleiki. Þar er hann og stefna Bandaríkjanna sýnd í mjög jákvæðu ljósi.

Ljóst má telja að sífellt fleiri aðilar munu líta til tölvuleikja til að auglýsa sig eða afla sínum málstað brautargengis. Það er því vert að fylgjast grannt með þróun mála á notkun þess útbreidda og vinsæla miðils sem tölvuleikir eru.There are no comments

Add yours